Krakkakot

Krakkakot er 20-25 barna deild og á henni eru elstu börnin fögurra ára en þau yngstu að nálgast tveggja ára. Börnin eru í skipulögðum leik, fá þjálfun í félagsfærni og gerðar eru kröfur til þeirra hvað varðar mál og sjálfsbjörg.

Á Krakkakoti er skipulagt hópastarf. Í hópunum eru sex til sjö börn, einn starfsmaður fylgir svo hverjum hóp. Börnin borða alltaf hádegismat og síðdegishressingu í sama hópnum og með sama starfsmanni og það sama má segja um hópastarf, TRAS-vinnustund og útiveru.

Þessi hópaskipting auðveldar yfirsýn starfsmanna og eykur öryggistilfinningu barnanna. Börnunum er skipt í hópa eftir aldri og þroska. Í hópastarfi er unnið með alls kyns þemu á margsskonar hátt, til dæmis: Ég og leikskólinn, fjölskyldan mín, líkaminn minn og skynfærin, matarræði, hreyfing, heilsa og fleira.

Öll börn fara einu sinni í viku í hópastarf, einu sinni í viku í TRAS-vinnustund og fjórum sinnum í viku í útiveru. Söngstund er einu sinni í viku með Stórakoti sem er elsta deild leikskólans.

Síðasta vetur voru prófaðar, í fyrsta skipti, lýðræðisstundir þar sem börnin voru með hópnum sínum (6-7 börn) og fengu þau algjört frelsi til að velja sér efnivið í leik og rými til hans. Þetta er gert til þess að koma til móts við lýðræði barnanna og réttindi sem oft reynist erfitt að mæta í stórum hóp á einni deild. Þetta reyndist skemmtileg og verður áfram í þróun í samráði við börnin

TRAS-vinnustundir eru málörvunarstundir sem hópurinn á í rólegheitum með sínum hópstjóra. TRAS (Tidlig Registrering Av Språkudvikling) er skráning á málþroska sem grundvallast á markvissum athugunum í daglegum samskiptum við barnið. Prófið er byggt á fræðilegum grunni, þar sem leitast er við að svara spurningum sem byggðar eru á niðurstöðum þekkta atferlis- og málþroskakvarða.